Nýtt efni

Vilt þú hjálpa við að gera dagskrá stöðvarinnar fjölbreyttari?

XARadíó spilar upplestur úr 12-spora bókum ásamt upptökum frá 12-spora fundum. Þó að upptökur frá AA fundum séu sem stendur hátt hlutfall þeirrar dagskrár sem stöðin spilar er það alls ekki út af stefnu stöðvarinnar.

Til þess að upptaka komist í loftið þarf að fá samþykki viðkomandi fyrir því að upptaka með honum sé spiluð og að taka út öll eftirnöfn 12-spora félaga, lífs eða liðins, með því að hlusta á hverja upptöku og klippa út eftirnöfn.

Félagsmönnum XARadíó stendur til boða að aðstoða við að koma nýju efni í loftið. Ef þú vilt taka þá getur þú sent okkur skilaboð þess efnis með því að smella á "hafa samband"

Styrktartónleikar á föstudaginn langa

Styrktartónleikar til að kaupa nýjan FM sendi til að setja upp á Suðurlandi verða haldnir 21. mars n.k.

Útsendingar XA-Radíós ná yfir allt Faxaflóasvæðið á tíðninni FM 88,5 og Eyjaförð og Akureyri á slóðinni FM 87,9. Nú stendur til að bæta þriðja sendinum við og hefja útsendingar á Suðurlandi. Til að fjármagna kaup á útvarpssendi sem er nægilega öflugur til að ná til alls Suðurlands, hefur verið blásið til styrktartónleika fyrir stöðina í Háskólabíói 23. mars n.k. og leggja fjölmargir listamenn málefninu lið.

Meðal þeirra sem fram koma á tónleikunum eru:

  • Bubbi Morthens
  • Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson
  • KK
  • Páll Óskar
  • dúettinn Pikknikk
  • rapparinn Poetrix
  • Ragnheiður Gröndal
  • Kynnir: Davíð Þór Jónsson

Aðgangseyrir er 2.500 krónur sem rennur óskipt til kaupa á sendinum. Miðasala fer fram á www.midi.is og við innganginn. Tónleikarnir hefjast kl.22:00, strax eftir afmælisfund AA-samtakanna sem fram fer í Laugardagshöll, á Föstudaginn langa. Þeir sem vilja legga stöðinni lið eru hvattir til að mæta og fyrir aðra þá er hér gott tækifæri til að sjá frábæra tónleika á degi þar sem flest kaffihús og skemmtistaðir eru lokaðir.

Hlustunarpartý

Hlustunarpartý var haldið í dag og mættu 10 manns. Hlustað var á þó nokkuð margar upptökur og var niðurstaðan sú að lengd dagskrárinnar fór úr 4 sólarhringum, 23 tímum og 36 mínútum upp í 5 sólarhringa, 7 tíma og 19 mínútur. Við kunnum þeim er mættu og tóku þátt góðar þakkir fyrir.

Einnig var ný útsendingartölva sett upp til að sjá um útsendingar í Reykjavík. Hingað til hefur verið notast við forritið novus_ordo_seclorum, heimasmíðað forrit sem stjórnar forritinu mpg321, en á næstunni verður núverandi útsendingartölvu skipt út fyrir aðra sem mun nota forritið CampCaster.

Þessi hlustunarpartý eru vinnufundir sem eru haldnir þegar þurfa þykir til að flýta fyrir því að nýtt efni sé sett í loftið. Hafðu samband ef þú vilt hjálpa til við að koma nýju efni í útsendingu. Það eina sem þú þarft er tölva og internettenging.